Truflanir á sjónvarpsþjónustu

í Sjónvarp

Sjónvarpsútsendingin dettur út þegar síminn hringir

Vandamálið er líklega tengt smásíunni sem á að vera tengd við öll símtæki og faxtæki og er þá best að skipta henni út. Í einstaka tilfellum er vandamálið tengt símtækinu sjálfu. Prófaðu þá mismunandi hringistillingar á því (t.d. að skipta úr „pulse“ yfir í „tone dialing“).

Rafmagnstruflanir

Rafmagn getur haft áhrif á beini eða myndlykil. Ef truflanir koma á skjáinn þegar kveikt er á einhverju rafmagnstæki er ástæðan að öllum líkindum sú að þráðlaust sjónvarpstengi og viðkomandi rafmagnstæki eru tengd á sömu rafmagnsgrein í húsinu. Truflanir vegna rafmagnstækja ættu þó aðeins að vara í stutta stund og hverfa fljótt.

Gakktu úr skugga um að þráðlausu sjónvarpstengin séu tengd beint í vegg eða í fyrsta tengi við snúru fjöltengis.

Rafmagnstengill, sem er staðsettur við hliðina á símatengli, getur valdið truflunum á ADSL-sambandinu milli beinis og símstöðvar. Ef vandamálið er enn til staðar má prófa að færa tengin til í íbúðinni.

Myndtruflanir í Sjónvarpi Tals

Lita- og myndbrengl – Athugaðu hvort skarttengi séu kirfilega fest í sjónvarp og myndlykil. Öll vandamál sem tengjast brenglaðri mynd má sennilega rekja til skarttengis.

Stafrænar truflanir (pixlar) – Bendir til þess að um línuvandamál geti verið að ræða. Yfirfarðu snúruna úr myndlykli í beini (router). Er eitthvert mar á snúrunni, t.d. vegna núnings við hurð? Snúran frá beini í vegg á ekki að vera lengri en u.þ.b. 2 metrar.

Ef þú ert með heimatengi skaltu athuga að ekki er fullur stuðningur við það ef tengið er tengt í millistykki. Ef ómögulegt er að tengja það beint í vegg verður það að vera fremst í millistykkinu, þ.e. næst rafmagnssnúrunni.

Hreyfing á snúru og/eða búnaði getur valdið truflunum.

SCART-snúra úr myndlykli í sjónvarp veldur truflunum

Snúran (SCART-kapall) á milli sjónvarps og myndlykils er mjög viðkvæm og getur valdið ýmsum vandamálum, eins og:

  • Flökt á mynd
  • Svartur skjár
  • Mynd en ekkert hljóð
  • Hljóðlaust en mynd sést
  • Litabreytingar og óvenjulegir litir
  • Léleg myndgæði

Lausn: Byrjaðu á því að ýta SCART-snúrunni betur inn í sjónvarp, myndbandstæki, DVD-spilara og myndlykil. Ef það leysir ekki vandamálið getur verið að SCART-snúran sé ónýt og hana þurfi að endurnýja.